Tilraunaeldhúsið - Kaffiboðið

Það var auðvitað löngu kominn tími á almennilegt tilraunaeldhús nóvembermánaðar, en það fór þó svo að ég hafði ekki einu sinni sjálf tíma í það og allir aðrir uppteknir sömuleiðis.  Það reyndist þó vera tilvalið og var með tilrauna-kaffiboð í staðinn :-)

Ástæða þess að það var svona tilvalið var að ég hafði einmitt verið í vandræðum með að velja eftirrétti og með þessu kaffiboði gat ég slegið margar flugur í einu höggi og endaði á að elda 4 mismunandi "kökur" og gerði tilraun til sykurpúðagerðar (sem reyndar klúðraðist því miður).

Já, þetta var eiginlega bara alveg frábært eins og sjá má hér fyrir neðan:

Við upphaf tilrauna-kaffiboðsins ...

Eins og áður sagði þá gerði ég tilraun til sykurpúðagerðar, uppskrift úr nýju uppskriftabókinni minni (Cooking for Christmas), en ég klikkaði á e-u þar og þeir stirnuðu ekki almennilega.  Önnur tilraun verður þó gerð fljótlega og verður þá sett hér um eins og lög gera ráð fyrir.  Þeir lofuðu þó hrikalega góðu, enda innihéldu þeir bæði múskat og kanil, auk vanillu :-)

"Klúðrið mikla"

Kaka númer 1 - Snúðakaka
Snúðakakan var sú sem sló í gegn í þetta skipti (auk rauðku).  Hún var eiginlega bara hrikalega góð, þó ég segi sjálf frá, og verður tvímælalaust á borðum í næsta afmæli ásamt Cream-pie-inu frá síðasta alvöru tilraunaeldhúsi.  

Snúðarnir voru einnig skemmtilega einfaldir í gerð, þó gerð þeirra hafi raunar hafist í gærkvöldi :-)

Mjólk og olía hituð (má ekki sjóða)

Gerið sett ofan á mjólkurblönduna og látið standa
Á meðan hveitiblandan er útbúin ... 

Mjólkurblandunni blandað saman við hveitið ...

Hrært saman :-)

Þangað til það lítur svona út ...

Látið hefast í ca. klst

Þá er hnoðað saman við matarsóda, lyftidufti og hveiti

Þá var deigið í raun tilbúið til notkunar, en út af því að ég ætlaði ekki að baka það fyrr en daginn eftir þá skellti ég því einfaldlega í skál, lokaði og geymdi í kæli yfir nóttina og raunar má geyma það þannig í allt að þrjá daga, sem er alger snilld :-)

Í morgun tók ég það svo einfaldlega út úr kælinum og gerði eftirfarandi ...

Kýldi deigið niður :-)

Flatti það út (ca. 74x25 cm)

Hellti smjöri ofan á og dreifði úr með puttunum

Stráði svo helling af kanil og sykri ofan á, 
og aðeins meira smjöri

Rúllaði deiginu upp, byrjaði fjær mér

Skar rúlluna svo í bita (ca. 2 cm)

Raðaði bitunum upp í formið ...

Leyfði þeim svo að hefast undir þurrkustykki í ca. 20 mín

Skellti þeim svo í ofninn í ca. korter við 185°C, 
mikilvægt að þeir brúnist ekki of mikið 
(þeir eiga að vera gullnir) :-)

Skellti svo þessu glassúr yfir sem gerði góða snúða
enn betri ... :-)

Þetta var eiginlega alveg hrikalega gott og verður alveg örugglega gert aftur fyrir næsta kaffiboði!  En uppskriftin var eftirfarandi ...

Deigið
1/2 l nýmjólk
1 dl matarolía
1 dl sykur
2 1/4 þurrger
5 dl hveiti
--
1 kúfuð tsk lyftiduft
1 slétt tsk matarsódi
2 tsk salt

Fylling
2 dl bráðið smjör
Góður slatti af kanil
Góður slatti af sykri 

Hlyn-glassúr
~450 gr flórsykur
1/2 dl nýmjólk
6 msk bráðið smjör
1/4 dl kaffi
Örlítið salt
1 msk af maple/hlyn-bragðefni (ég átti auðvitað ekkert svoleiðis, en notaði bara hlynsýróp í staðinn sem ég held að hafi bara virkað ágætlega)

Virkilega góðir snúðir, bara svona til að vekja enn og aftur athygli á því :-)

Kaka 2 - Rauð flauelskaka (Red Velvet cake) eða "Rauðka)
Þessi kaka var svoltíð öðruvísi, hún var mjög góð og það þrátt fyrir að ég hafi klúðrað kreminu svolítið :-) 

Það besta við þessa köku var að hún reyndist tiltölulega einföld í framkvæmd, þó að mér hafi auðvitað tekist að gera þetta eins flókið og mögulegt var og tókst að klúðra hinu og þessu.  Raunar hafði ég virkilega miklar efasemdir um að ég væri að gera rétt, einkum í byrjun ... en út kom þessi fína kaka :-)

Bráðið smjör og sykur, hrært saman

Eggjum, súrmjólk, vanilludropum, matarsóda og ediki
blandað saman með gaffli

Hveiti og salt sigtað saman í skál

Hveitinu og eggjablöndunni hellt út í sykurblönduna
smátt og smátt til skiptis (smá hveiti, smá eggjablanda)

Rauður matarlitur og kakó blandað saman

Hrært saman vel og vandlega

Matarlitsblöndunni svo hellt út á deigið

Hrært saman ... girnilegt ekki satt? :-)

Nammi nammi namm

Skipt á milli tveggja forma

Svona small þetta út úr forminu eftir að hafa verið í ofninum
í 25 mínútur við 180°C.

Kremið var svo tiltölulega einfalt, eða svo hélt ég ...
Skellti saman rjómaosti og smjöri, hrærði vel
Svo var það einfaldlega flórsykur og vanilludropar 
hrært út í ... en einhvernveginn tókst mér að gera það of þunnt

Þannig að þetta leit svona út ...

Ekki svo slæmt ha? :-)

Uppskriftin var eftirfarandi:

Kakan
2 dl brætt smjör
3 1/2 dl sykur
5 dl hveiti
11/4 tsk salt
2 stór egg
2 dl súrmjólk (... buttermilk)
1 tsk vanilludropar
1 tsk matarsódi
1 1/2 tsk edik
ca 30 ml rauður matarlitur
1 1/2 tsk kakóduft

Kremið
340 gr rjómaostur
ca. 168 gr smjör, mýkt
5 dl flórsykur
1/4 tsk salt
2 tsk vanilludropar

Kaka 3 - Sítrónupæ
Sítrónupæið reyndist vera mjög gott, þó að sjálfsögðu ekkert á við cream pie-ið frá því um daginn.  En bragðið var létt og gott, eðal eftirréttur eftir þungan mat og örugglega enn betra með smá rjóma.

Botninn var mjög einfaldur í framkvæmd
Smjör, hveiti, sykrum og salti hrært saman

Þangað til að hálfgert deig myndaðist

Deiginu var þrýst niður í form sem búið var að klæða
með álpappír, sem var smurður með smá bræddu smjöri
Þetta var því næst sett inn í 180°C ofn 
og bakað í ca. 25 mín, eða þar til gullið 

Á meðan botninn var í ofninum þá hrærði ég saman
eggjum og eggjarauðum, sykri og hveiti þangað til ...

það leit svona út ... þvínæst var sítrónusafa og
sítrónuberki blandað út í og hrært saman við

Þessu var svo hellt ofan á heitan botninn og skellt í
ofninn aftu, hitinn lækkaður niður í 150°C 
og bakað í 30-35 mín

Svona leit þetta út þegar þetta var tilbúið ...

Og svona ofan á, gleymdi auðvitað að sigta flórsykur ofan á :-)

Mjög ferkst og gott!

Uppskriftin er eftirfarandi:

Botninn
169 gr kalt bitað smjör
1/2 dl ljósbrúnn sykur
1/2 dl flórsykur
4 dl hveiti
1/4 tsk salt

Fyllingin
4 stór egg + 2 eggjarauður
1 1/2 dl hveiti
4 dl sykur
2 dl sítrónusafi
1 tsk sítrónubörkur, raspaður

Kaka 4 - heilsubananakaka
Þessi kaka var nokkuð áhugaverð og já, hún var eiginlega síst af þessum fjórum ... en það var eiginlega meira mér að kenna heldur en nokkuð annað þar sem ég notaði alltof gróft heilhveiti :-)

Sykur og smjör hrært saman og banana svo bætt við

Svo er kókosmjólk og eggi bætt við

Í framhaldi er svo heilhveiti hrært saman við ásamt matarsóda
og karamellubitum :-)

Þessu svo skellt í form og hnetusmjörs"hlunkum"
skellt ofan á og blandað létt saman við

Þessu svo skellt í ofninn og bakað við 180°C í ca. 20 mín

Alveg ágætt ef fólk er hrifið af bönunum, olli mér þó nokkrum vonbrigðum, en eins og ég sagði, kenni sjálfri mér um að hafa ekki notað almennilegt heilhveiti :-)

Allt í allt, frábær dagur og það besta er að mér tókst að komast hjá því að brjóta nokkuð, þó mér hafi auðvitað tekist að sulla heilmikið niður á bæði borð og gólf, en á eldamennskan ekki einmitt að vera þannig? 

:-)

Meira síðar.








  

Ummæli

Nafnlaus sagði…
er hægt að panta svona kaffiboð þegar maður kemur næst vestur?

Kveðja
Hildur Inga
Vestfirðingurinn sagði…
Ekki málið :) Bara láta vita með smá fyrirvara - þetta var alveg tveggja daga dæmi! :)
Dóra Hlín sagði…
Mmm, þessir snúðar voru fáránlega góðir - og líka rauða kakan - og líka sítrónukakan - Mmm og bara allt.