Mini-tilraunaeldhús 4

Þegar við systurnar bjuggum saman ekki svo alls fyrir löngu þá var oft heilmikið spekúlerað hvað ætti nú að vera í matinn, þ.e. þegar við fórum ekki í mat til mömmu og pabba.  Þá, eins og nú, hafði ég gaman af því að skoða heimasíður um allan heim í leit að nýjum uppskriftum og fann þá eina slíka sem hefur verið í miklu uppáhaldi hjá okkur systrunum síðan, og höfum við raunar breytt henni fram og til baka, svona eftir því hvað er til í ískápnum hverju sinni og hvort okkur hefur langað í beikon eða kjúkling, en upprunalega uppskriftin gerir þó ráð fyrir beikoni.

Uppskriftin er eftirfarandi:
Slatti af spagettí
2 tsk salt
Beikon (skorið í bita)
3 msk ólífuolía
1 bolli saxaður rauðlaukur
1 tsk rauðar chilli flögur (mulinn þurrkaður chilli)
3 tsk saxaður hvítlaukur
4 dl saxaðir tómatar (þroskaðir)
1/2 dl rauðvín
4 msk basil
1/2 dl parmesan (ég sleppi þessu yfirleitt)
Salt + grófur pipar

Svo höfum við systur oft sett út í t.a.m. sveppi, papriku og annað gott grænmeti.  Það er ótrúlegt að það virðist nánast alveg sama hverju í er bætt, alltaf er þetta jafn gott :)

Hér er svo aðferðin ...
Beikonið steikt 
(og spagettíið sett í pottinn ásamt saltinu)

Laukurinn saxaður og chilli-ið mulið
(ég átti ekki nóg af rauðlauk þannig
að ég setti smá blaðlauk með)

Laukur og chilli sett á pönnuna og steikt

Hvítlauknum svo bætt út í þegar laukurinn hefur linast

Tómatarnir tilbúnir á pönnuna ...

Tómatarnir settir út á laukinn

Þegar tómatarnir hafa steikst í smá tíma (ca. 5 mín)
er rauðvíninu hellt út á (tilvalið fyrir rauðvínslöggina),
þetta er látið sjóða í smá tíma,
"sósunni" leyft að þykkna aðeins

Beikoninu og spagettíinu blandað saman við

Svona lítur þetta út samblandað ...

og voilá, fullkomin máltíð :-)

Ég verð samt að viðurkenna að hún hefur oft lítið betur út hjá mér, tókst eiginlega smá að ofsjóða spagettíið og var í ofanálag að nota euroshopper spagettí sem mér finnst hreinlega aldrei jafn gott, en nammi namm, þetta var gott og fullkomin máltíð fyrir þá sem líkar við örlítið sterkan mat :-)

Njótið!

Ummæli