Tilraunaeldhúsið 16.10.10

Það er nokkuð sem e.t.v. ekki margir vita, en ég á stóra hrúgu af uppskriftabókum, hver annarri betri :)  Vandamálið er þó að þrátt fyrir það þá er ég alltof gjörn á að festast í e-m örfáum uppskriftum sem hafa reynst mér vel í gegnum tíðina og prófa sjaldan e-ð nýtt.  Til að breyta því ákvað ég að nú væri tími til að nýta mér þetta litla bókasafn mitt og er planið að prófa nýjar uppskriftir tvisvar í mánuði og er reglan sú að ég vel bók/bækur af handahófi og þaðan forrétt, aðalrétt og eftirrétt sömuleiðis af handahófi.

Fyrsta tilraunakvöldið heppnaðist nokkuð vel, en matseðill kvöldsins var eftirfarandi:

Forréttur: Pico de Gallo (mexíkanskur úr bókinni "The Pioneer woman cooks ...")
Aðalréttur: Lamb Curry (indverskur úr bókinni "How to cook everything") og Naan brauð
Eftirréttur: Cream Pie (amerískur úr bókinni "How to cook everything")


Forrétturinn var ótrúlega einfaldur og þægilegur, einfaldlega að saxa tómata, lauk, ferskan kóreander og jalepenjo sem svo var blandað saman í skál ásamt smá lime safa, grófmöluðu salti og pipar - æðislega gott með tortilla flögum (og góðum fordrykk).  Eina sem þarf að passa er magnið af jalepenjo, en það fer eftir smekk hversu bragðsterkt fólk við hafa þetta.  Besta við þennan rétt var svo að hann gekk svo líka sem snakk eftir matinn.  Sérstakar þakkir til gestanna sem sáu algerlega um að klára þennan part af matreiðslunni :)


Aðalrétturinn kom sterkur inn og var með því betra sem ég hef smakkað lengi, Garam Masala kryddið hefur þar mikið að segja.  Rétturinn er ótrúlega einfaldur, eiginlega rosalega einfaldur og hver sem er getur eldað hann.  Byrjað er á því að steikja lambakjötið (sem búið er að sneiða í litla bita), ég lenti í smá vandræðum með að fá lambakjöt þannig að ég endaði á að kaupa lambalærisneiðar sem reyndust vel, en voru voðalegt vesen þar sem ég endaði á að eyða hálftíma í að beinhreinsa kjötið.

En já, byrjað er á að steikja/brúna kjötið í olíu og er það um leið kryddað með salti og pipar.  Kjötið er svo tekið af pönnunni og sneiddur laukur settur á pönnuna.  Í framhaldi er kryddum bætt við (garam masala, hvítlaukur, engiferrót og fleira).  Svo er kjötinu bætt aftur á pönnuna ásamt soði og svo er lokið sett á pönnuna og þetta látið malla í klukkutíma eða svo.









Á meðan kjötið var að malla þá var lítið mál að steikja naanbrauðið á annarri pönnu og vá, hvað þetta var gott!! Ég mæli með þessari uppskrift við alla, hrikalega bragðgott og já, einfaldur réttur.





Eftirrétturinn var líklega sé réttur sem kom mér mest á óvart þetta kvöldið og hann var ólýsanlega góður.  Þetta er án vafa nýji uppáhaldseftirrétturinn minn og verður hann eflaust oft í boði á mínu heimili í framtíðinni.
Þessi réttur var einnig líklega sá réttur sem mig kveið mest fyrir að gera, en hann fól í sér ótalmargt sem ég hafði ekki gert áður.  Í fyrsta lagi hef ég aldrei búið til "pie" eða böku, í öðru lagi hef ég aldrei búið til búðing og í þriðja lagi hef ég aldrei búið til marengs.  Sem sagt fullt af nýju til að prófa í þessari einu uppskrift.
Stærsti kosturinn við þessa uppskrift er líklega að hægt er að búa til réttinn strax að morgni eða jafnvel daginn áður.

Byrjað er á því að gera bökuskelina, sem er líka stærsti vandinn.  Fyrst er degið gert, sem er ekkert flókið, en svo þarf það að kælast í ískáp í a.m.k. hálftíma eða tíu mínútur í frysti.  Þegar sá tími er liðinn þá er deigið flatt út þannig að það passi í bökuformið (aðeins ríflega til að það nái upp á brúnir) og svo þarf það að kólna aftur í klukkustund í ísskáp.  Þegar því er lokið fer loka snyrting fram og svo sett inn í ofn.  Það þarf að passa að "pikka" deigið áður en það er sett inn og helst setja e-a þyngd í botninn (ég notaði maís/poppbaunir) til að koma í veg fyrir að það myndist loftbólur í botninum.  Á meðan skelin var í ofninum bjó ég til búðinginn sem var merkilega einfalt, einfaldlega sykur, eggjarauður, maísanamjöl, vanilludropar og mjólk.  Eggjahvíturnar og flórsykur voru svo notuð til að búa til marengsið.  Þegar búðingurinn hafði þykknað var honum hellt í skelina og svo marengsinn settur ofan á og þetta sett inn í ofn.  Vá, enn og aftur hvað þetta smakkaðist vel :)










Já, allt í allt var þetta frábært kvöld með góðum mat og enn betri vinum og lofar góðu fyrir framhaldið.  Endilega kommentið ef ykkur finnst e-ð vanta hjá mér í tengslum við matreiðsluna, frásögnina eða hvað annað sem ykkur dettur í hug.

Meira síðar.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Þetta er alveg æðislegt blogg hjá þér Albertína! Mjög girnilegir réttir allt saman. Hlakka til að sjá næsta tilraunaeldhús :) Á örugglega eftir að prófa eitthvað af þessu!
Kv. Elín Smárad.
Hrefna sagði…
Gaman að þú skulir vera farin að skrifa aftur :) Og girnó réttir...!
Nafnlaus sagði…
Þetta hljómar vel og ekki er verra að hafa myndir með. Væri alveg til í að prófa þetta einhvern tímann. Smáábending: það má líka nota hrísgrjón til að fergja bökudeigið í ofninum.
Nafnlaus sagði…
Sorry - gleymdi að skrifa undir komment nr. 3. Kv. Sólrún.
Dóra Hlín sagði…
Takk fyrir mig, eftirrétturinn var ólýsanlega góður.
Vestfirðingurinn sagði…
Takk kæru vinkonur :) Góð hvatning til að halda áfram!

Takk sömuleiðis fyrir ábendinguna Sólrún, vissi þetta reyndar en átti barasta ekki hrísgrjón í lausu og ekki heldur þurrkaðar baunir þannig að þetta varð niðurstaðan í þetta skiptið :) Hafði mestar áhyggjur af því að þær myndu poppast!! :)
Bryndís sagði…
Lítur mjög vel út og rosa spennandi. Á við sama uppskriftarvandamál og þú greinilega.
Þú virðist samt ekki vera jafn mikil subba og ég þegar ég elda, alla vegna eru myndirnar subbufríar :)
kv. Bryndís
Nafnlaus sagði…
takk fyrir okkur:) þetta var mjög gaman, stefán er búin að vera veikur heima alla vikuna, uppþornaður af skitunni sem hann fékk eftir forréttinn. æjj, hann hefur aldrei verið fyrir sterkan mat.

hahaha nei ég er að grínast :) þetta var svakalega gaman og maturinn frábær. kv.Ester
Hrefna sagði…
Heheh... Hefði nú verið frekar fyndið ef baunirnar hefðu poppast og þú verið með fullan bakaraofn af poppi! :)