Mexíkönsk grýta

Það er alltof langt síðan síðast en ég er komin í stuð á ný eftir smávægilega blogglægð - stundum er maður bara að skrifa of mikið annarsstaðar til að nenna að skrifa heima líka :)  En hér er ég byrjuð á ný!

Rétturinn sem ég deili með ykkur hér er yndislega einfaldur og tiltölulega fljótlegur. Það er líka tiltölulega einfalt að breyta honum í grænmetisrétt sem skemmir heldur ekki fyrir.

Uppskriftin ... fyrir 4
~500 gr nautahakk eða sojahakk
1 rauð paprika
1 gul paprika
Cajun kryddblanda
1 laukur
1 dós niðursoðnir tómatar
2 dl kjöt- eða grænmetissoð
2 dl vatn
1 (lítil) krukka salsasósa
2 dl hrísgrjón (ósoðin)
1 vorlaukur
2 dl rifinn ostur (valkvætt)
1 lítil dós gular baunir (valkvætt)
Doritos flögur (valkvætt)




Byrjaði á að skera paprikurnar og 
laukinn í hæfilega bita. 

Tók svo fram djúpa pönnu og byrjaði
á að brúna kjötið og kryddaði það létt
með cajun kryddblöndunni og salti og 
pipar. Bætti svo paprikunum og 
lauknum út í og steikti þar til grænmetið
var farið að mýkjast.  

Þá var bara að bæta út í tómötunum,
salsasósunni, kjötsoðinu og vatninu
og blandaði öllu vel saman með sleif. 
Á þessum tímapunkti er ágætt að smakka
réttin aðeins til og bæta við kryddi ef þarf.

Þá var að lokum að bæta hrísgrjónunum út í.

Blandið hrísgrjónunum vel saman við og
setjið lok á pönnuna. Ég á því miður
ekki lok á þessa pönnu og því lítið annað 
að gera en að skella bara álpappír yfir. 

Þetta fékk að malla við lágan hita í um 20-30 mínútur
eða þar til hrísgrjónin voru tilbúin. Það er ágætt að
hræra kannski tvisvar þrisvar í pönnunni svo það
festist ekki of mikið við botninn. Það er líka ágætt
að hafa í huga að bæta e.t.v. smá vatni út í ef ykkur
finnst rétturinn stefna í að verða of þurr.

Að lokum var bara að dreifa söxuðum vorlauk yfir
og bera fram. Ég bar þetta fram með hvítlaukshnútum
og doritos flögum sem fóru mjög vel með. Þá er gott 
að dreifa smá rifnum osti yfir og einnig gefur það 
frískandi yfirbragð að bæta gulum baunum við.

Virkilega einfaldur og þægilegur réttur og ekki skemmir fyrir að hann er ferlega góður. Það besta við hann er þó líklega að hann er gerður í einum potti og því algert lágmarksuppvask! Ég mæli óhikað með þessum og það verður að viðurkennast að þetta er þúsund sinnum betra en grýturnar sem keyptar eru í pakka. 

Meira síðar.

Ummæli