Einfaldir og fljótlegir hvítlaukshnútar

Þegar ég skellti í mexíkönsku grýtuna um daginn fannst mér nauðsynlegt að vera með eitthvað smá brauð með. Þá datt mér í að skella í einfalda og þægilega hvítlaukshnúta sem eru búnir til úr einföldu pizzadeigi.

Deigið
5 dl hveiti
2 tsk þurrger
1/2 tsk salt
1 msk olía
2-3 dl volgt vatn

Hvítlaukssmjörið
2-3 hvítlauksrif
3 msk smjör
Þurrkuð eða fersk steinselja
Gróft sjávarsalt

Byrjaði á að búa til deigið og leyfði
því að hefast í um korter-tuttugu 
mínútur. Þegar það hafði hefast aðeins 
þá byrjaði ég á að skipta því í tvo hluta.
Notaði kökukefli til að fletja út sitthvorn
hlutann í um 20-25 cm ferhyrning.
Notaði svo pizzahníf til að skera hvorn
bút um sig fyrst í hálft og svo í um 
10-12 renninga. 

Tók svo hvern renning og hnýtti einfaldan hnút.
Raðaði þeim á ofnplötu og skellti inn í ofn í 
10 mínútur. Ef það er tími til þá er ágætt að leyfa 
þeim aðeins að hefast áður en þeim 
er skellt inn í ofninn.

Á meðan hnútarnir voru í ofninum
saxaði ég hvítlaukinn og skellti í 
lítinn pott ásamt smjörinu og bræddi
vel og vandlega saman.

Penslaði svo hnútana um leið og þeir
komu út úr ofninum og dreifði svo
sma steinselju og salti yfir.

Yndislega einfaldir og þægilegir hvítlaukshnútar sem smökkuðust líka stórvel. Það er svo tilvalið að taka afganginn (ef svo ólíklega vill til að einhver er) og skella í frysti og eiga þá til að grípa í þegar gestir koma óvænt í mat.

Meira síðar. 


Ummæli