10 mínútna pasta með hvítlauk og basiliku

Jæja, það er alltof langt síðan ég bloggaði síðast. Eiginlega skammarlega langt.

Það verður þó vonandi bót þar á eftir miðjan ágúst en ég mun flytja í nýja íbúð með alveg hreint yndislegu eldhúsi sem ég get ekki beðið eftir að komast í og elda eitthvað girnilegt fyrir ykkur :)

Þangað til langar mig að deila nýrri uppskrift með ykkur sem ég hef verið að sjóða saman smátt og smátt. Hún er í sjálfu sér ekkert merkileg og ekkert ólík því sem mörg ykkar eflaust gera. Hún er hins vegar í miklu uppáhaldi hjá mér þessa dagana og vegna þess hversu yndislega fljótleg og bragðgóð hún er.

Önnur ástæða þess að þetta er orðin svona "go-to" uppskrift hjá mér er að ég er með svo ferlega gott mötuneyti í vinnunni að ég er að reyna að minnka það að vera alltaf að borða tvo "kvöldverði" á dag. Þá er þetta léttur en virkilega góður réttur sem hentar vel á kvöldin og tekur sem áður sagði, enga stund að gera.

Þið afsakið að uppskriftin er pinku slump og magnið hér miðast við 1:

Spagettí (magn eftir svengd og soðið samkvæmt leiðbeiningum ~9 mín)
1-2 msk ólívuolía
1/2 msk hvítvínsedik (passið að setja ekki of mikið)
1-2 hvítlauksrif eða hálfur geiralaus hvítlaukur
1-2 stilkar fersk basilika
Salt og pipar
Smá þurrkaður chillí
Parmesanostur eftir smekk

Byrjaði á að fylla pott með vatni og
kom pastanu af stað.

Á meðan pastað sýður er svo bara að saxa hvítlaukinn
og finna til basilíkuna. Mér finnst best að nota svo 
skæri og klippa hana beint í skálina.

Svo var bara að hella vatninu af og
skella pastanu í skál. Setti ólívuolíuna,
edikið og hvítlaukinn ofan á pastað,
ásamt salti, pipar og örlitlu af þurrkuðu
chillí. Svo klippti ég basilíkuna niður
og bætti við smá parmesanosti til að 
toppa þetta. 

Svo er bara að blanda öllu vel saman 
og njóta! Það er ágætt að hafa við 
hendina smá aukasalt og smakka aðeins
til eftir smekk. 

Mæli óhikað með þessum og ég er búin að gera hann svo oft í sumar að það er næstum vandræðalegt að segja frá. Hann sameinar allt það sem er gott og er ferlega fljótlegur og léttur ... hmm ... ætli það sé of mikið að borða hann þrjá daga í röð?

Meira síðar. Lofa!

Ummæli