Bakað spagettí með svínakjöti og kryddsalt

Hugsið ykkur, bloggið á hvorki meira né minna en 2 ára afmæli á morgun! Er alvarlega að íhuga að vera með afmælisboð í næstu viku  í tilefni þess :-) Það er alveg magnað að hugsa til þess að það sem byrjaði sem hálfgert djók hafi lifað í 2 ár og 800-1000 heimsóknir á dag. Takk kærlega fyrir móttökurnar! Án ykkar lesendur góðir þá hefði ég aldrei dugað svona lengi :-)

En nema hvað, eins og ég sagði frá í síðasta bloggi þá fékk ég hluta af stórfjölskyldunni í mat um daginn og eftir nokkra umhugsun ákvað ég að skella í bakað spagettí, annars vegar út af því að ég fékk ekki nautakjötið sem mig vantaði í Samkaup þar sem kjötborðið er lokað á sunnudögum og hins vegar út af því að ég vildi hafa eitthvað sem flestir gætu borðað með ánægju.

Uppskriftin endaði svona ... fyrir sirka 10 manns
Kryddsaltið
3 msk salt
1/4 tsk timijan
1/4 tsk marjoram
1/4 tsk hvítlauksduft
Rúm 1 tsk paprikuduft
1/8 tsk karrý
1/2 tsk sinnepsduft
1/8 tsk laukduft
1/8 tsk dill
1/4 tsk steinselja


Byrjaði á því að gera kryddsaltið - setti öll
kryddin saman í litla skál ...

og blandaði öllu vel saman og setti svo til hliðar 
meðan ég útbjó matinn, setti svo restina af kryddsaltinu
í gamla krydddollu til að nota síðar.



Bakað spagettí
2 dósir niðursoðnir tómatar
4 dl tómatsósa
1 dl vatn
1 laukur
1 græn paprika
2 hvítlauksgeirar
Búnt af ferskri steinselju
1 1/2 tsk ítölsk kryddblanda
1 1/2-2 1/2 tsk kryddsalt
1/2 tsk salt
1/2 tsk svartur pipar
1/2 tsk hvítlauksduft
1 1/2 tsk sykur
3 lárviðarlauf
750 gr svínahakk
500 gr spagettí
4 dl ostur

Skar laukinn ...

og paprikuna frekar smátt og setti í pott.

Saxaði hvítlaukinn og steinseljuna ...

og skellti út í potinn sömuleiðis ásamt kryddunum ...

og sykrinum ...

og lárviðarlauf.

Svo voru það tómatarnir ...

og tómatsósan ...

allt sett í pottinn ásamt að lokum vatninu.

Þá var bara að kveikja undir og blanda öllu vel saman.
Leyfði þessu að ná suðu, lækkaði þá aðeins og leyfði
þessu að malla í sirka 45 mínútur.

Þá var að steikja hakkið.
Kryddaði það aðeins með kryddsaltinu og pipar, 
sirka 1-1 1/2 tsk kryddsalt.

Hellti svo sósunni út á.

Blandaði öllu vel saman og leyfði að malla í sirka 20 mín. 

Tók þá fram form og smurði það.
Hellti kjöti í botninn og spagettí ofan á.

Dreifði osti ofan á spagettíið ... setti  kjöt ofan á ...
spagettí ofan á þar ...

og svo aftur kjötlag sem var efst.

Setti svo restina af ostinum ofan á ...
fuuuullt af osti :-)

Skellti þessu svo inn í ofn í sirka 20 mínútur eða
þar til osturinn var farinn að brúnast.

Þetta reyndist virkilega gott og vel mettandi. Enn betra jafnvel í hádegismat daginn eftir!  Virkilega þægilegt og gengur í flesta gikki :-)

Meira síðar.

Ummæli