Karamellupoppkorn

Ég elska sælgæti svo mikið að ég reyni að forðast það að borða það, einu sinni byrjað - get ekki hætt! Kannast einhver við slíkt? :-)  Nema hvað, til að halda mér í skefjum þá er reglan sú að ég má aðeins borða nammi sem ég bý til sjálf og eins dugleg og ég er í eldhúsinu þá nenni ég því nú sjaldnast þannig að þetta virkar vel!

Síðasta laugardagskvöld ákvað ég að vera með vidjókvöld og það er fátt betra en að vera með popp með góðri bíómynd.  Það sem toppar það þó er þó líklega poppkorn með karamellu - a.m.k. er það mín skoðun eftir að hafa prófað þessa uppskrift.

Innihaldsefnin voru eftirfarandi ...
1 örbylgjupopppoki
2 dl púðursykur
110 gr smjör
1 dl sýróp
1/2 tsk vanilludropar
1/2 tsk matarsódi

Tók fram pönnuna mína og setti á hana púðursykur

og sýróp 

og smjör ... mmm - lofar strax góðu :-)
Svo var bara að setja hitann á, meðalhita og 
leyfa þessu öllu að bráðna saman en hræra reglulega.

Þegar sykurblandan hafði náð ~120°C 
slökkti ég á hitanum ...

og bætti vanillunni út í - passið ykkur og
munið að þið eruð að vinna með sjóðandi sykur 

og matarsódanum

Hræra öllu vel saman - en matarsódinn gerir 
karamelluna loftkenndari og skemmtilegri

Setti poppið í stóra skál - 
nógu stóra til að geta blandað karamellunni og 
poppinu almennilega saman án vandræða.

Þá var bara að hella karamellunni yfir poppið
og blanda þessu saman.  Farið varlega
karamellan er rosalega heit :-)

Hellti svo poppinu á ofnplötu - 
hafið sílikon eða smjörpappír undir 
og dreifið poppinu jafnt yfir plötuna og skellið
svo inn í 120°C heitan ofn í sirka hálftíma.
Þannig blandast karamellan jafnar yfir poppið,
auk þess sem það þurrkar poppkornið og 
gerir það stökkara.

Hræra svo í poppinu - ágætt að gera það líka
einu sinni á meðan það er inn í ofninum.  
Þegar það hefur kólnað er bara að brjóta það upp
og setja í skál - þ.e. ef þið getið beðið svo lengi :-)

Svo er bara að njóta!

Algerlega nýtt uppáhald - er alger sökker fyrir poppi og enn meiri sökker fyrir karamellu þannig að ég get óhikað mælt með þessu fyrir alla karamelluaðdáendur og gefur skemmtilega tilbreytingu frá venjulega poppinu.

Meira síðar.

Ummæli

Unknown sagði…
úfff hvað þetta er gott
Vestfirðingurinn sagði…
Já, þetta er eiginlega alltof gott :)