Bombay kjúklingakarrý

Ákvað í gær að prófa nýja uppskrift (kemur á óvart ekki satt?)  :-)   Í þetta skiptið varð Bombay kjúklingakarrý fyrir valinu, ekki var það þó vegna þess að mig langaði svo í karrý, heldur einfaldlega vegna þess að ég átti kjúkling sem var að skemmast, og síðast en ekki síst vegna þess að ég átti kókoshnetu sem mig langaði virkilega mikið að prófa!  Það var því ekkert annað í myndinni en að finna uppskrift sem gerði ráð fyrir ferskri kókoshnetu og hana fann ég auðvitað í The Essential New York Times Cook Book ...




Uppskriftin:
Kjúklingur, skorinn í 6 hluta (ég svindlaði reyndar á þessu og notaði 4 bringur)
Salt og grófur pipar
2 msk smjör
1/2 laukur, skorinn í þunnar sneiðar (ég notaði heilan)
2 msk karrýduft (notaði fínt og gott madras karrý, var næstum of bragðmikið en mér fannst það gott :-)
Sítrónubörkur og safi af einni sítrónu
2 dl rifin fersk kókoshneta
1 dl kókosmjólk
1/2 dl vatn
Ég setti svo líka tvö þurrkuð chilli líka sem ég muldi yfir þegar sósan byrjaði að sjóða

Allt tilbúið, kókoshneta, skrúfjárn og hamar!

Sló skrúfjárnið í gegnum "augun" á kókos-
hnetunni og lét svo leka í glas ...


Vatnið komið úr hnetunni, mmm... hvað það er gott :-)

Svo var bara að nota skrúfjárnið og hamarinn
til að brjóta hnetuna ... mjög spennandi!

Mmmm... lítur vel út ekki satt?

Var næstum búin að gleyma hvað fersk kókoshneta
er hrikalega góð!  Ákvað að hafa þetta brúna bara 
á, enda þegar ég byrjaði á að reyna að hreinsa það
af þá tókst mér auðvitað að skera mig :-)
Sem sagt ... farið varlega þegar þið handleikið hnífa!

Svo var bara að rífa niður hluta af hnetunni til að nota
í karrýið ... restin var borðuð í eftirrétt :-)

Svo var kjúklingurinn skorinn í bita, á meðan smjörklípa
var látinn bráðna á pönnunni við háan hita

Skellti svo kjúklingnum á pönnuna, ásamt grófum pipar
og salti sem ég dreifði yfir kjúklinginn

Nammi nammi kjúklingur ... upp úr smjöri ... mmm...

Tók svo kjúklinginn af pönnunni, lækkaði hitann niður í 
"meðalhita" sem er 2 á eldavélinni minni :-)

Skar laukinn í þunnar sneiðar 

og skellti svo ásamt annarri smásmjörklípu á pönnuna

Leyfði svo að brúnast í rólegheitunum á meðan ég raspaði
sítrónuna og kreisti úr henni safann

Karrý-inu skellt ofan á laukinn og látið veltast aðeins 
saman á pönnunni ...

Bætti svo við sítrónubörknum ...

og sítrónusafanum ...

og kókoshnetunni ... :-)

Hellti svo kókosmjólk, kókosvatninu og vatni saman við

og setti kjúklinginn út í, setti lokið á og leyfði að malla
við lágan hita í ca. korter

Að lokum leit þetta svona út :-)

Nokkuð góður, bragðmikill og einfaldur indverskur réttur (það má auðvitað nota tilbúnar kókosflögur og þ.a.l. ekki tími sem fer í að glíma við kókoshnetuna). Karrýbragðið var nokkuð sterkt, en ég var reyndar líka að nota nýtt og sterkt karrý, mun þó hugsanlega nota hálfri skeið minna næst.  Þó að það hafi ekki verið í upprunalegu uppskriftinni fannst mér sömuleiðis mjög gott að hafa sett smá chilli út í, en ég fíla líka sterkt bragð :-)

Meira síðar.

Ummæli

Hildur Inga sagði…
Þessi fer í "verð að prufa þetta safnið" hjá mér.
ErlaHlyns sagði…
Þetta er ekkert smá girnilegt. Ég hef aldrei í lífinu eldað úr ferskri kókoshnetu