Fajitas frá grunni

Það er svo undarlegt að því meira sem ég prófa af uppskriftum, því hrifnari verð ég að mat sem búin er til frá grunni, þ.e. með sem minnst af tilbúnu hráefni, t.d. er ég farin að blanda ég kryddin sjálf, bý til sósur og annað slíkt :-)  Það var því ekki að undra þegar ég rakst á uppskrift að tortilla kökum þá varð ég að prófa!

Plan kvöldsins var að búa til Fajitas, alveg frá grunni: hveitikökurnar, kjúklingakryddið,  guacamole og salsað ... Það fór þó ekki alveg svo vel þar sem það var ekki til ferskt kóríander í Samkaup þannig að ég varð að geyma salsað til betri tíma, en gerði þó allt hitt og smakkaðist að venju vel, þó ég hafi ekki sannfærst um að tortilla kökurnar hafi verið vandræðanna virði, en það var virkilega erfitt að ná þeim almennilega þunnum.

Byrjum á tortilla kökunum ... Uppskriftin var mjög einföld:
6 dl hveiti
2 tsk lyftiduft
2 tsk salt
1 1/2 dl olía
1 1/2 dl heitt vatn

Hljómar einfalt ekki satt? :-)

Þetta byrjaði líka þægilega, blanda saman þurrefnunum 

Svo var einfaldlega að hella olíunni út í og nota puttana
til að blanda vel saman við hveitiblönduna ...

allt þar til það leit svona út :-)

Svo var bara að hella heitu vatninu út á og 
hræra saman með trésleif ...

Að lokum leit þetta svona út og þá var bara að láta
það standa í ca. 30 mín, en það er ekki nauðsynlegt

Hálftíma síðar leit þetta svona út ... ekki mikil breyting :-)

Þá var ekkert annað en að rífa deigið í ca. 12 bita ...

og byrja að fletja út ... og fletja meira út, og meira og ...

Sökum almennrar svengdar lagði ég ekki í að skera af
kökunum til að þær yrðu fallega hringlaga ...
Enda held ég að þær verði ekkert endilega bragðbetri
við að vera hringlega ;-)

Svo var bara að steikja þær á pönnu þangað til þær
urðu brúnar og myndarlegar ...

Steikja, steikja og steikja :-)

Þrátt fyrir að fallast nánast hendur yfir hversu endalaust erfitt var að fletja kökurnar út þá þýddi ekkert að gefast upp og á meðan deigið var að jafna sig bjó ég til mareneringu og lagði kjúklinginn í hana.  Marengeringin var ekki flókin og nammi namm hvað kjúklingurinn varð góður:
3 kjúklingabringur
1 msk ólífuolía
1 lime ... uppskriftin segir safi og börkur, en þar sem ég átti ekki lime þá notaði ég bara tilbúinn limesafa (já ég  
              veit, skamm Albertína)
1 msk chilli duft ... ég notaði 3 þurrkuð chilli
1 tsk cumin
1/2 tsk oregano
2 hvítlauksgeirar, saxaðir
Salt og pipar

Öllu blandað saman í skál 

og hrært saman :-)  Ótrúlega girnileg blanda!

Svo er bara að skera kjúklingin í strimla og setja í
marengeringuna ...

og svo er bara að hræra kjúklingnum vel saman ...

og láta standa inn í ísskáp í ca. 30 mínútur :-)

Þetta var skemmtilega þægilegt og á meðan þá kjúklingurinn saug í sig góða bragðið þá nýtti ég tímann og gerði guacamole ...
Avocado ... mikilvægt að kaupa/nota það þroskað!
Rauðlaukur ... smátt saxaður
Ferskt chilli
Lime safi
Salt og pipar

Avocado-ið skorið í tvennt og steinninn fjarlægður,
ásamt skinninu :-)

Svo er einfalt og gott að mauka það með gaffli ...

Svo er það einfaldlega sett í skál til að blanda hinum 
innihaldsefnunum almennilega saman við :-)

Rauðlaukurinn og chillið komið í skálina ...

Allt komið saman og þetta ágætasta guacamole
tilbúið til átu :-)

Auðvitað verð ég að viðurkenna að ég gleymdi að kaupa tómata, en þeir eru auðvitað góðir út í ... en þetta var ekkert verra fyrir vikið, enda snilldin við guacamole hversu einfalt það er og í raun lítið annað en gott avocado, chilli og limesafi það sem nauðsynlegt er!

Þá var bara að steikja kjúklinginn ...

Hver húsmóðir þarf að geta gert fleira en eitt í einu :-)

Kjúklingurinn tilbúinn og búið að skera smá lauk og
smá papriku, svona til að hafa með :-)

Snöggsteikti laukinn og paprikuna á pönnunni, 
án þess að þrífa hana eftir kjúklinginn til að fá smá bragð

Svo var bara að setja (því miður keypta) salsað á
heimatilbúna tortilluna og fylla hana af gúmmelaðinu :-)

Nammi nammi namm, smá sýrður rjómi og rifinn ostur 
setja punktinn yfir i-ið!

Þetta var virkilega frábær máltíð á laugardagskvöldi, ekki skemmdi fyrir að gert hana nánast alveg frá grunni (utan salsasósuna sem klikkaði í þetta skiptið) ... Það er e-ð við að vita alveg nákvæmlega hvað er í matnum sínum sem gerir hann betri, kannski er það ímyndun er það er þá a.m.k. góð ímyndun :-)  

Meira síðar.








Ummæli

Nafnlaus sagði…
Mmmmm

Kveðja
Hildur Inga